Sunnuhlíð 12

5 Mar 2025

NIB fjármagnar fasteignaverkefni Heima hf. á Íslandi

Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) hefur samþykkt 12 ára fjárfestingalán upp á 4.500 milljónir ISK (u.þ.b. 31 milljón evra) til Heima hf. (Heimar) til að fjármagna þrjú fasteignaverkefni á Íslandi; endurbætur á heilsukjarna, stækkun á hjúkrunarheimili og byggingu skrifstofuhúsnæðis.

Lánið er fjármagnað með  8,5 milljarða verðtryggðum umhverfisskuldabréfum NIB í íslenskum krónum til sjö ára, sem gefin voru út þann 20. febrúar 2025.

Á Akureyri hefur fasteign að Sunnuhlíð 12, sem áður var verslunarmiðstöð, verið endurhönnuð í nútímalega 4.830 m² heilbrigðis- og læknamiðstöð, með 820 m² viðbyggingu. Húsnæðið hýsir nú bæði opinbera og einkarekna heilbrigðisþjónustu og er eina sérhæfða heilsugæslustöðin á svæðinu, sem dregur m.a. úr þörf sjúklinga fyrir að ferðast til Reykavíkur. Húsið var tekið í fulla notkun  í júní 2024 og hefur starfsemin í húsinu orðið lykilþáttur í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi.

Lánið mun einnig fjármagna stækkun hjúkrunarheimilisins að Sóltúni 2 í Reykjavík, úr 6.870 m² í 10.360 m² og munu 67 ný hjúkrunarrými bætast við þau 92 sem fyrir eru. Framkvæmdirnar munu hafa í för með sér endurnýjun á hjúkrunarheimilinu og koma til með aðmæta aukinni eftirspurn eftir öldrunarþjónustu. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist árið 2025 og að þeim ljúki síðla árs 2027.

Í Kópavogi eru Heimar að byggja skrifstofuhúsnæði, að Silfursmára 12, nálægt verslunarmiðstöðinni Smáralind. Um er að ræða nýtt og glæsilegt skrifstofu-, verslunar- og þjónusturými á frábærum stað í Smáranum, í miðju höfuðborgarsvæðisins. Húsnæðið mun bjóða upp á fjölbreytta möguleika fyrir fyrirtæki sem vilja nýta sér sterka staðsetningu, frábæra aðstöðu og sveigjanlegt skipulag.  Áætlað er að framkvæmdunum ljúki haustið 2025.

„Við erum ánægð með að gefa út  fyrsta skuldabréf NIB í íslenskum krónum í tvo áratugi og erum þakklát fyrir þann mikla áhuga sem fjárfestar sýna. Með því að styðja við þessi fasteignaverkefni erum við að skapa nauðsynlega innviði sem bæta heilbrigðisþjónustu, auka við aðstöðu fyrir eldri borgara og efla efnahagslega starfsemi á Íslandi,“ segir André KÜÜSVEK, forstjóri NIB.

Við erum afar ánægð með að skýr stefna Heima og framkvæmd hennar á undanförnum árum fái viðurkenningu frá einni fremstu fjármálastofnun Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Með vaxandi áhuga erlendra fjárfesta er þessi áfangi mikilvægur til að auka fjölbreytni í fjármögnun okkar og styðja áframhaldandi arðbæran vöxt kjarnastarfsemi okkar”, segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima.

Heimar hf. er íslenskt fasteignafélag sem skráð er í kauphöll Nasdaq Iceland. Heimar fjárfesta í, leigja út og reka atvinnuhúsnæði á Íslandi.

NIB er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu átta aðildarlanda: Danmörku, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn fjármagnar einkarekin og opinber verkefni innan og utan aðildarlandanna. NIB er með hæsta mögulega lánshæfismat, AAA/Aaa, hjá leiðandi matsfyrirtækjunum eins og S&P Global Ratings og Moody ‘s. Lestu meira á www.nib.int.

Nánari upplýsingar veita;

Sari Cabell, bankastjóri, í síma +358 10 618 0519, Sari.Cabell@nib.int

Iiris Anttalainen, samskiptadeild, í síma +358 10 618 0258, Iiris.Anttalainen@nib.int

Related resources

26 Feb 2025

Heimar hf

EUR 31 million