Ljósleidarinn ehf.

24 Feb 2025

Norræni fjárfestingarbankinn styður innviðafjárfestingar Ljósleiðarans

NIB hefur undirritað 7 ára lánasamning við Ljósleiðarann ehf. til að styðja við fjárfestingar í ljósleiðarakerfinu á Íslandi á árunum 2024–2026.

Lánið, sem nemur 4 milljörðum króna (27,6 milljónum evra), er veitt til samfjármögnunar á mikilvægum uppbyggingarverkefnum Ljósleiðarans. Fjármagnið mun renna í áframhaldandi uppbyggingu ljósleiðarakerfisins, þar á meðal ljósleiðaratenginga við heimili og fyrirtæki, þróun net- og flutningskerfa sem styðja við örugga og skilvirka gagnaflutninga, auk styrkingar á kerfinu.

Þetta lán er fjármagnað með tekjum frá sjö ára, 8,5 milljarða íslenskra króna verðtryggðu umhverfisskuldabréfi NIB, gefnu út 20. febrúar.

Mikilvægt skref í áframhaldandi vexti

Ljósleiðarinn er leiðandi fyrirtæki í uppbyggingu stafrænna innviða á Íslandi og starfar nú á öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins. Fyrirtækið tengir árlega þúsundir nýrra heimila og vinnur með sveitarfélögum að þróunarverkefnum sem styðja við þéttbýlisvöxt og stafræna framtíð landsins.

Auk þess gegnir Ljósleiðarinn lykilhlutverki í alþjóðlegri tengingu Íslands við umheiminn með rekstri á internetsamböndum til Evrópulanda.

Allar framkvæmdir Ljósleiðarans byggja á ábyrgum vinnubrögðum með sjálfbærni að leiðarljósi. Nýjar tengingar eru lagðar meðfram núverandi flutningsleiðum og byggðum svæðum, sem lágmarkar umhverfisáhrif framkvæmda.

Viðurkenning á mikilvægi fjárfestingarinnar

Forstjóri NIB, André Küüsvek, segir fjármögnun Ljósleiðarans styðja við markmið bankans um framleiðniaukningu og sjálfbærni á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.
„Það er okkur sönn ánægja að styðja við þessar mikilvægu fjárfestingar í stafrænum innviðum á Íslandi. Sterkir fjarskiptainnviðir eru forsenda hagvaxtar og nýsköpunar, og verkefnið fellur vel að áherslum NIB um sjálfbærni og tæknilega framþróun.“

Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, fagnar samkomulaginu og telur það styrkja félagið til framtíðar:
„Það skiptir miklu máli að Ljósleiðarinn vinni með öflugum og traustum aðila þegar kemur að fjármögnun. Með þessum samningi við NIB tryggjum við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins og getum haldið áfram að byggja upp trausta og örugga innviði fyrir fólkið í landinu bæði þegar kemur að atvinnurekstri og hinu daglega lífi.“

Um aðilana

Ljósleiðarinn ehf. er í fullri eigu Orkuveitunnar, sem er viðskiptavinur NIB. Orkuveitan er opinbert félag í eigu Reykjavíkurborgar (93,5%), Akraneskaupstaðar (5,5%) og Borgarbyggðar (1%).

Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu átta aðildarríkja: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn veitir fjármögnun til einkageirans og opinberra aðila í og utan aðildarríkjanna. NIB hefur hæstu mögulegu lánshæfiseinkunnir, AAA/Aaa, frá matsfyrirtækjunum S&P Global Ratings og Moody’s.

Nánari upplýsingar

Tiina Kuusela, yfirmaður í deild opinbera geirans og veitufyrirtækja +358 10 618 0241, tiina.kuusela@nib.int

Arild Moen, aðstoðarframkvæmdastjóri samskiptadeildar, +358 10 618 0496, arild.moen@nib.int

Related resources

24 Feb 2025

Ljósleidarinn ehf.

EUR 27.6 million