Norræni fjárfestingarbankinn opnar lánaramma fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki ásamt Landsbankanum
Fishing trawlers in Reykjavik harbour. Photo: Helgi Thorsteinsson / Norden.org
Norræni fjárfestingarbankinn og Landsbankinn hafa hleypt af stokkunum nýjum 30 milljóna evra lánaramma til fimm ára fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og umhverfistengd verkefni á Íslandi.
Um er að ræða fyrsta lán Norræna fjárfestingarbankans til íslensks banka síðan ríkisstjórnin byrjaði að aflétta gjaldeyrishöftunum sem sett voru á banka í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008.
„Að mati Norræna fjárfestingarbankans er ramminn mikilvægur liður í því að stuðla að fjárfestingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi. Við teljum að afnám gjaldeyrishafta muni ýta frekar undir efnahagslegan bata á Íslandi. Við álítum að í stjórn efnahagsmála í landinu hafi verið stigin nauðsynleg skref til að tryggja að bankakerfið standist álagið þegar höftunum verður aflétt,“ segir Henrik Normann, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans.
„Undirritunin í dag markar ánægjulegan áfanga í uppbyggingu trausts á erlendum fjármálamörkuðum. Lánskjörin í samningnum við NIB eru bankanum hagfelld og styðja við markmið bankans um að lækka fjármögnunarkostnað og auka fjölbreytni lánveitenda í erlendri mynt. Aukinn áhugi erlendra fjárfesta og aðgangur að erlendu lánsfé á hagstæðum kjörum eru mjög mikilvægur þáttur fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Lánveitingar úr lánarammanum verða ákveðnar á grundvelli þess hve vel þær samræmast því markmiði Norræna fjárfestingarbankans að stuðla að aukinni samkeppnishæfni aðildarríkja bankans. Lánþegar munu koma úr ýmsum atvinnugreinum, þar á meðal sjávarútvegi, landbúnaði og upplýsingatækni.
Landsbankinn, stærsti banki landsins , var stofnaður árið 2008, er í meirihlutaeigu ríkissjóðs Íslands og veitir alhliða fjármálaþjónustu.
Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu aðildarlandanna átta: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar bæði til opinberra- sem og verkefna i einkageiranum jafnt innan sem utan aðildarríkjanna. NIB hefur hæstu mögulegu lánshæfiseinkunn, AAA/Aaa, frá fremstu fyrirtækjum sem meta lánshæfi á alþjóðlegum vettvangi, Standard & Poor´s og Moody´s.
Frekari upplýsingar veita
Sari Cabell, sérfræðingur á lánasviði, í síma +358 10 618 0519,
Dimitrijs Alehins, sérfræðingur á kynningasviði, í síma +358 10 618 0296,